Innlent

Komst út úr logandi húsi sínu við illan

Guðrún Guðmundsdóttir, íbúi að Hólmaseli í Flóahreppi, komst út úr brennandi húsi sínu við illan leik í gærkvöldi. Það var henni til happs að nágrannar hennar sáu eldinn og kom henni til bjargar.

Guðrún Guðmundsdóttir er enn að átta sig á breyttum aðstæðum eftir að íbúðarhús hennar brann til kaldra kola ásamt öllum hennar eignum. Guðrún bjó ásamt syni sínum í húsinu, auk hamsturs, páfagauka og heimilishundsins, Týra. Sonur Guðrúnar hafði farið til föður síns svo Guðrún var ein heima þegar eldurinn kom upp en hún var þá sofnuð.

Þeir Hallgrímur og Sævar eru nýjir nágrannar Guðrúnar á jörðinni Arabæ. Þeir sátu við eldhúsborðið þaðan sem þeir sáu að íbúðarhús Guðrúnar stóð í ljósum logum.

Guðrún var tryggð en peningar geta ekki bætt allt og sárast þykir henni að hafa misst gæludýr sín. Vera má að heimilishundurinn Týri hafi fundið á sér að eitthvað óvernjulegt væri í þann mund að fara að gerast en hann fékkst ekki inn í hús þegar Guðrún ætlaði að fara að sofa. Guðrún telur að húsið hafi brunnið á um hálftíma en það var timburhús, byggt árið 1976. Snögg viðbrögð Brunavarna Árnessýslu dugðu því ekki til og húsið er rústir einar. Talið er að eldurinn hafi kveiknað út frá logandi kerti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×