Innlent

Láta ekki Alþjóðahvalveiðiráðið stoppa sig

Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson MYNDVísir

Sjávarútvegsráðherra segir að Íslendingar muni hefja hvalveiðar í atvinnuskyni hvort sem aukinn meirihluti Alþjóðahvalveiðiráðsins styður þær eða ekki. Hvalveiðisinnar unnu táknrænan sigur á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins þegar naumur meirihluti náðist fyrir því að hvalveiðibann væri í raun óþarft.

Þrátt fyrir að í fyrsta sinn sé meirihluti Alþjóðahvalveiðiráðsins fylgjandi hvalveiðum dugar það skammt þar sem þrír fjórðu þjóðanna sem í ráðinu sitja þarf til að fá banninu hnekkt. Þessi meirihluti hefur þó fengið því framgengt að ályktun sem segir að hvalveiðibann ráðsins sé ekki lengur nauðsynlegt hefur verið samþykkt þar sem ástand margra hvalastofna leyfi takmarkaðar veiðar. Stóru hvalveiðiþjóðirnar, Íslendingar, Norðmenn, Japanir og Rússar nutu fulltingis smáríkja í Karíbahafi og Afríku og náðu naumum meirihluta, 33 þjóðir sögðu já, 32 nei.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segir niðurstöðuna jákvæða þróun. Litlar líkur séu að þrír fjórðu Alþjóðahvalveiðiráðsins samþykki að hvalveiðar í atvinnuskyni hefjist á ný. Einar segir að Íslendingar muni ekki láta menn sem ekki taka neinum efnislegum rökum stoppa þá í að nýta það sem er réttur þeirra sem fullvalda þjóð, það er að nýta auðlindina með skynsamlegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×