Innlent

Rannsókn á tveimur landhelgisbrotum?

Ríkissaksóknari ákveður á næstu dögum hvort rannsókn verður haldið áfram á meintu landhelgisbroti færeysks togara, sem Fokkervél Gæslunnar stóð að meintu broti í íslenskri lögsögu í fyrra. Rannsókn á nýju meintu broti annars færeysks togara er fram haldið á Eskifirði í dag.

Skipstjóri togarans Brestur, sem Fokkervélin flaug fram á í fyrra, sinnti engum fyrirmælum skipherra flugvélarinmnar og sigldi heim til Færeyja, þar sem þarlend lögregla var beðin að rannsaka málið fyrir lögregluna í Reykjavík. Brotalöm var á þeirri rannsókn og felldi Reykjavíkurlögreglan frekari rannsókn niður en þá ákvörðun kærði Landhelgisgæslan til Ríkissaksóknara, sem þarf að taka ákvörðun fyrir mánaðamót.

Skýrslutaka hófst á ný af skipverjum af færeyska togaranum Sancy, sem skipverjar á Óðni færðu til hafnar á Eskifirði í fyrradag. Um 20 tonn af fiski eru í lestinni og fyrstu vísbendingar úr siglingatölvu togarans gefa til kynna að sá fiskur hafi verið veiddur í íslenskri lögsögu, en sérfræðingar Gæslunnar og fulltrúar frá framleiðendum tölvunnar eru að rannsaka gögnin.Síðar í dag ræðst hvort togaranum verður sleppt, eða aflanum landað úr honum til að hann skemmist ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×