Innlent

Skaðleg smáskilaboð

Gífurlegur fjöldi SMS smáskilaboða, jafnvel yfir hundrað þúsund, voru send á íslensk GSM símanúmer um tíu-leytið í morgun. Skilaboðin geymdu upplýsingar um erlenda stefnumótasíðu og ef farið er inn á heimasíðuna mun tölva viðkomandi smitast af skaðlegum tölvuvírus.

SMS smáskilaboðin tilkynntu að búið væri að skrá viðkomandi á stefnumótasíðuna irrealhost punktur com. Þá var einnig greint frá því að ef viðkomandi vildi ekki vera rukkaður um tvær evrur á dag í gegnum símareikning sinn yrði sá hinn sami að fara inn á vefsíðuna og afskrá sig.

Fyrr í þessum mánuði fengu sumir notendur Símans svipuð smáskilaboð en í þetta sinn eru viðskiptavinir annarra símafyrirtækja einnig að fá þau. SMS smáskilaboðin sjálf skaða ekki og enginn kostnaður er sjálfkrafa skuldfærður á símreikning notenda eins og sagt er í skilaboðunum.

 

Sendingar þessar koma að sögn frá útlöndum en slíkur SMS-ruslpóstur er nokkuð algengur. Er fólki bent á að eyða slíkum smáskilaboðum og láta alls ekki glepjast til að fara inn á umrædda vefsíðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×