Innlent

SA sögð beita hótunum

Samtök atvinnulífsins segja fyrirhugaða vinnustöðvun starfsmanna Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli á sunnudaginn ólögmæta og minna á mögulega bótaskyldu verkalýðsfélaga og starfsmanna. Forsvarsmaður annars verkalýðsfélags starfsmanna segir samtökin beita hótunum.

Ákveðið var á fundi starfsfólks Flugþjónustunnar í gær að leggja niður vinnu í þrjár klukkustundir á sunnudagsmorgun, á háannatíma, til að vekja athygli á óánægju starfsmanna með kaup og kjör og vinnuaðstöðu.

Það mun hafa áhrif á ferðaáætlun allt að tvö þúsund farþega Icelandair og Iceland Express til og frá landinu. Engum ferðum verður aflýst, þeim aðeins frestað.

SA sendu í dag bréf til Verslunarmannafélags Suðurnesja og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, segir að í bréfinu komi fram að það sé álit SA að um ólögmætar aðgerðir sé að ræða og reyndar sé það óumdeilt. Einnig telji samtökin að trúnaðarmenn starfsmanna hafi haft milligöngu og séu í forsvari þar sem þeir hafi boðað til þessa fundar í fyrrakvöld í húsakynnum annars stéttarfélagsins. Í bréfinu sé áréttað gagnvart félögunum að þar sem trúnaðarmenn séu í forsvari séu stéttarfélögin sjálf skaðabótaskyld vegna þess tjóns sem fyrirtækið verði fyrir. Einnig geti starfsmenn sjálfir verið bótaskyldir vegna þess tjóns sem þeir séu að valda félaginu.

Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir félagið hafa hvatt starfsmenn til að láta af boðuðum aðgerðum enda samningar í gildi og friðarskylda. Hann segir bréf Samtaka atvinnulífsins lítið annað en hótun.

Ragnar segir að í bréfinu til verkalýðsfélaganna sé aðeins gerð grein fyrir þeim lagareglum sem gildi í landinu og ef forsvarsmenn félaganna vilji kalla það hótun sé þeim frjálst að gera það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×