Erlent

Telja stjórnvöld hafa rétt til að ráða Hamas-leiðtoga af dögum

MYND/AP

Ísraelsher hélt áfram árásum sínum á Gaza-ströndina í morgun, bæði úr lofti og á landi. Þorri ísraelsks almennings telur að stjórnvöld hafi rétt til að ráða leiðtoga Hamas-samtakanna af dögum.

Eftir að herskáir Palstínumenn tóku ísraelskan hermann í gíslingu á dögunum hefur Ísraelsher haldið uppi linnulausum árásum á Gaza-ströndina. Í gær kom einhverra hörðustu átaka palestínskra skæruliða og ísraelskra hersveita í næstum tvö ár nærri þeim stað sem hermaðurinn var tekinn. Nítján Palestínumenn féllu og einn Ísraeli. Í morgun héldu Ísraelar uppteknum hætti, bæði með loftárásum og eins réðust hermenn inn á yfirgefið svæði á norðanverðu Gaza.

Fréttir af mannfalli eru ennþá óljósar en í það minnsta einn Palestínumaður hefur látið lífið í árásunum. Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínumanna fordæmdi árásirnar harkarlega í morgun og sagði þær "glæpi gegn mannkyni." Augljóst væri að Ísraelar notuðu gíslatökuna sem yfirskin til að knésetja heimastjórn Palestínumanna sem Hamas-samtökin veita forystu.

Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir hins vegar að þær séu svar við ítrekuðum eldflaugaársásum Palestínumanna yfir landamærin á Gaza og liður í því að knýja þá til að sleppa hermanninum. Skoðanakönnun sem ísraelski dagblaðið Maariv birti í dag bendir til að 82 prósent Ísraela telja réttlætanlegt að yfirvöld láti ráða leiðtoga Hamas af dögum vegna átakanna á Gaza.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×