Sport

Eriksson vildi fá Ferdinand í landsliðið

Anton Ferdinand missti af tækifæri til að fara til Þýskalands
Anton Ferdinand missti af tækifæri til að fara til Þýskalands NordicPhotos/GettyImages

Sven-Göran Eriksson, fráfarandi landsliðsþjálfari Englendinga, hefur gefið það upp að hann hafi viljað fá varnarmanninn Anton Ferdinand inn í hóp sinn á HM í stað Luke Young þegar hann meiddist. Ekkert varð þó af þessu, því þegar Eriksson hafði samband við Ferdinand, hafði hann 24 tímum áður gengist undir aðgerð vegna kviðslits.

"Það var rosalega svekkjandi að þurfa að segja nei þegar Eriksson hringdi, því ég sat bara heima hjá mér og var að jafna mig eftir aðgerð," sagði Ferdinand og bætti við að það hefði verið góð reynsla að fara með bróður sínum Rio Ferdinand til Þýskalands, jafnvel þó hann hefði ekki fengið að spila neitt. Eriksson setti Michael Dawson á lista varamanna sinna í stað Ferdinand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×