Sport

Get ekki beðið Materazzi afsökunar

AFP

Franski leikmaðurinn Zinedine Zidane tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um atburðina í úrslitaleiknum á HM á dögunum, í viðtali við franska sjónvarpið. Zidane biðst afsökunar á framferði sínu þegar hann skallaði hinn ítalska Marco Materazzi og segir hann hafa sagt mjög ljóta persónulega hluti um systur sína og móður. Hann fékkst ekki til að greina frekar frá því hvað fór þeirra á milli.

"Ég vil biðja um fyrirgefningu allra krakkanna sem horfðu upp á þetta ljóta atvik. Ég á mér engar málsbætur í þessu og vil því vera einlægur og horfast í augu við það sem ég gerði," sagði Zidane.

"Materazzi sagði ljóta hluti um fjölskyldu mína, systur mína og móður. Ég reyndi að hlusta ekki á hann - en hann hélt áfram að tyggja það aftur og aftur. Þegar maður heyrir svona hluti í sínum síðasta leik, vill maður auðvitað ekki bregðast svona við, en þegar maður heyrir þetta í annað og þriðja sinn. Það er mjög slæmt að bregðast svona við eins og ég gerði þegar tveir milljarðar manna eru að horfa og milljónir barna. Ég get beðið þau öll afsökunar, en ég get ekki beðið Materazzi afsökunar - því þá væri ég að lýsa því yfir að það sem hann sagði væri rétt. Sum orð eru bara svo hræðileg að maður vildi frekar láta sparka sig niður en að fá að heyra þau aftur og aftur. Ég útskýrði fyrir dómaranum að mér hefði verið ögrað, en ekkert afsakar hvernig ég brást við. Þetta var ófyrirgefanleg framkoma," sagði Zidane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×