Innlent

Getur átt von á dauðarefsingu

Réttarhöld hófust í gær yfir unga manninum sem ákærður er fyrir að hafa myrt hina tvítugu Ashley Turner á Keflavíkurflugvelli í fyrra. Hann gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur.

Ashley Turner, tvítugur flugliði í þyrlubjörgunarsveit Keflavíkurflugvallar, fannst látin í ágúst í fyrra í sameiginlegum svefnskála hennar og Calvins Hill, sem var samstarfsmaður hennar. Hún lést af völdum höfuðáverka og stungusárs á hálsi. Hill, rúmlega tvítugur flugliði, er ákærður fyrir að hafa myrt Turner, en til stóð að hún bæri vitni gegn Hill fyrir herrétti í þjófnaðarmáli.

Réttað er yfir Hill fyrir herrétti í Bolling herstöðinni í Washington í Bandaríkjunum. Ef Hill verður fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi samkvæmt herlögum.

Engin vitni voru að morðinu og morðvopnið hefur ekki fundist. Helsta sönnunargagnið gegn Hill er blóðdropi úr Turner sem fannst á reim á íþróttaskóm Hills. Verjendur Hills benda hins vegar á fjarvistarsönnun hans, en hann eyddi kvöldinu með íslenskri kærustu sinni að horfa á myndina Top Gun. Að sögn hennar yfirgaf hann herbergið aðeins tvisvar og í stuttan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×