Innlent

Atvinnuleysi lægra en í júní í fyrra

Atvinnuleysi á Íslandi í sumar virðist stefna í það að vera þónokkuð minna en í fyrra. Rúmlega 2.000 manns voru að meðaltali án atvinnu í júní eða 1,3% en á sama tíma í fyrra var 2% atvinnuleysi. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi í sumar virðist því stefna í að verða nokkuð minna en síðasta sumar. Atvinnuleysi var mest júní á Norðurlandi-eystra, þar sem það er 2,1% en minnst á Austurlandi, þar sem það er 0,3%. Lausum störfum hefur fækkað allstaðar á landinu nema á Vestfjörðum en mest á Austfjörðum en þar fer að draga úr vinnuaflsþörfinni.

Fram kemur í Morgunkorni Glitnis að atvinnuleysishlutfall elti gjarnan hagsveifluna með nokkurri töf. Þar segir einnig að atvinnuleysi sé nú í lágmarki þótt nokkuð hafi dregið úr hagvexti undanfarið. Búast megi því við að atvinnuleysi verði áfram lágt út þetta ár en þegar kemur fram á næsta ár verði líkur til að hlutfall atvinnulausra taki að hækka á ný í kjölfar þess að um hægist í efnahagslífinu. Eins segir að, að öllum líkindum muni áhrif samdráttar í þjóðarútgjöldum á næsta ári koma að fullu fram í auknu atvinnuleysi árið 2008, en þó telja Glitnismenn ólíklegt að atvinnuleysi verði verulegt vandamál hér á landi í náinni framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×