Erlent

Olíuverð hækkar

Heimsmarkaðsverð á olíu rauk upp í morgun vegna óróans fyrir botni Miðjarðarhafs. Allt útlit er fyrir að bensínverð hækki enn á ný hér á landi strax eftir helgi.



Tunnan af hráolíu kostaði rétt röska sjötíu og átta dollara í Bandaríkjunum í dag og nálgast óðfluga hámarkið frá 1979, eftir byltinguna í Íran, þegar verðið á tunnu fór yfir níutíu dollara. Það er kannski ekki skrýtið með tilliti til þess að allt virðist leggjast á eitt um að hækka olíuverð. Kjarnorkudeila Írana hefur ýtt verðinu upp undanfarið, en nú bætist minni framleiðsla í Nígeríu og svo atburðirnir í Ísrael og Líbanon, sem virðast hafa mest að segja um þessa skyndilegu hækkun í gær og í dag.

Starfsmenn áhættustýringardeilda stóru Olíufélaganna þriggja staðfestu við fréttastofu í dag að ef hækkunin myndi haldast væri alveg ljóst að hækka þyrfti bensínverðið hér enn frekar. Magnús Ásgeirsson hjá Essó segir þetta afar slæm og óvænt tíðindi, því að áður en allt hafi farið af stað fyrir botni Miðjarðarhafs, hafi allt útlit verið fyrir að verðið myndi lækka á næstunni.

Ekki liggur fyrir hve mikil hækkunin verður hér á landi, en miðað við hækkanir undanfarið mun lítrinn líklega hækka um nokkrar krónur og það gæti orðið strax núna um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×