Innlent

Smáskífa Nylon selst vel í Bretlandi

Stúlkurnar í Nylon
Stúlkurnar í Nylon

Fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar Nylon í Bretlandi endaði í 29. sæti sölulistans eftir vikuna. Smáskífan "Losing a Friend" kom í verslanir á mánudag og var uppseld í stórum hluta verslana í miðborg London sama dag. Meðal þeirra sem þurftu að láta í minni pokann fyrir Nylon flokknum eru meðlimir hljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers sem einnig gáfu út smáskífu í vikunni.

Í ljósi þess að platan seldist upp er hægt að búast við að hún haldi áfram að klífa sölulista og vinsældarlista. Breski sölulistinn tekur til sölu eintaka í verslunum og sölu á niðurhali á netinu. Ef hins vegar eru eingöngu taldar seldar smáskífur í verslunum er smáskífa Nylon í 14. sæti.

Alma Guðmundsdóttir úr Nylon kom einnig fram í útvarpsþættinum BBC Chart Show í dag þar sem listinn er kynntur. Hún þakkaði breskum aðdáendum viðtökurnar og lofaði að þeir ættu eftir að sjá meira af hljómsveitinni. Það eru orð að sönnu því Nylon mun koma fram í heimildarmynd BBC sjónvarpsstöðvarinnar um stúlknasöngsveitir sem nú er í vinnslu.

Önnur smáskífa Nylon verður gefin út í lok september og í kjölfarið breiðskífa. Stúlkurnar fara líklega í tónleikaferð í haust með stráka-rokksveitinni McFly.

Útgefandi smáskífunnar er Believer Music sem er í stærstum hluta í eigu Íslendinga og undir stjórn Einars Bárðarsonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×