Innlent

Íbúasamtök Grafarvogs vilja ekki að þverun verði gerð með uppfyllingu í Eiðisvík

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Íbúasamtök Grafarvogs gagnrýna að ekki sé gert ráð fyrir fleiri en tveimur áþekkum valkostum í drögum að matsáætlun um framkvæmd annars áfanga Sundabrautar og benda á að hvorugur valkostanna komi til móts við hagsmuni nárrúruverndar og lífsgæða íbúa.

Benda samtökin á í yfirlýsingu sinni, sem þeir sendu frá sér í kvöld, að svæðið þar sem framkvæmdirnar eiga sér stað, sé síðasta heildstæða ósnortna strandlengja Reykjavíkur og hefur því mikið verndargildi, einkum vegna nálægðar við þéttbýli. Leiruvogur og Blikastaðakró hafa einstakt náttúruverndar-, útivistar og fræðslugildi og er svæðið allt á náttúruminjaskrá. Samtökin óska því eftir að gert verði ráð fyrir, í drögum að matsáætlun, að þvera Eiðisvík með lágbrú, þannig að áfram flæði yfir Eiðið, til þess að tryggja full sjávarfallaskipti í Eiðisvík, Gorvík, Blikastaðakró og Leiruvogi. Ef þverun verður gerð með uppfyllingu Eiðisvíkur getur það haft veruleg áhrif á burðargetu sjávarfalla og þar með aukið setmyndun í Leiruvogi og Blikastaðakró sem hefði afgerandi óafturkræfar afleiðingar fyrir dýralíf og útivist á svæðinu.

Einnig vilja samtökin að Leiruvogur verði þveraður með jarðgöngum sem lægju frá sunnanverðu Geldingarnesi að norðanverðu Gunnunesi á móts við Álfsnes, og með því, skapa verðmætt byggingaland og halda mengun í lágmarki við dýrmætar fjörur.

Eins benda Íbúasamtök Grafarvogs á, í yfirlýsingu sinni, að með ólíkindum sé að ekki hafi verið haft samráð við samtökin við gerð að drögum að matsáætlun þar sem íbúar í Grafarvogi og fyrirhuguð hverfi í Geldinganesi séu helstu hagsmunaaðilar þessarar framkvæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×