Innlent

Skemmtanahaldarar bera kostnað af aukinni löggæslu

Mynd/Ómar

Í umburðarbréfi sem gefið er út af Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra til lögreglustjóra landsins vegna útihátíða, kveður á um nýja reglugerð um löggæslukostnað. Samkvæmt nýjum reglum skal sá sem fyrir skemmtun stendur endurgreiða lögreglustjóra þann kostnað er leiðir af aukinni löggæslu vegna skemmtunar umfram það sem eðlilegt má telja.

Við mat á því hvað megi teljast eðlilegt ber lögreglustjóra að taka mið af fyrri reynslu sambærilegra skemmtana, þeim fjölda sem búist er við, viðbúnaði leyfishafa, hvort áfengi sé leyft og staðsetningu skemmtunar, það er hvort hún sé haldin í þéttbýli eða í dreifbýli.

Eins kemur fram í nýrri reglugerð að við ákvörðun um löggæslukostnað beri að gæta meðalhófs þannig að aðilum sé ekki íþyngt með kostnaði umfram það sem eðlilegt getur talist. Gæta skal samræmis við ákvörðun löggæslukostnaðar innan lögregluumdæmis þannig að sambærileg mál hljóti sambærilega meðferð. Þá skal einnig gæta samræmis milli lögregluumdæma með þeim hætti að í lögregluumdæmum af sambærilegri stærð gildi sömu reglur.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×