Lífið

Afmælismót Róberts í Vin á mánudaginn

Afmælismót Róberts Harðarsonar skákameistara verður haldið í Vin 24. júlí nk.
Afmælismót Róberts Harðarsonar skákameistara verður haldið í Vin 24. júlí nk.

Afmælismót Róberts Harðarsonar, skákmeistara og varaforseta Hróksins, verður haldið í Vin, mánudaginn 24. júlí, kl. 13. Hróksmaðurinn knái hefur verið ötull við heimsóknir í Vin þar sem hann hefur teflt fjöltefli, verið með skákskýringar og sett upp mót undanfarin ár.

Hann á afmæli síðar í vikunni en undirbýr sig að kappi fyrir Grænlandsferð Hróksins í byrjun ágúst en þar hefur Róbert ásamt fleirum staðið fyrir útbreiðslu skáklistarinnar undanfarin ár. Alþjóðlegt mót verður haldið í Tasiilaq um verslunarmannahelgina og á Róbert þar titil að verja, en kempan sigraði glæsilega á III. Alþjóðlega Grænlandsmótinu 2005. Eru Grænlandsvinir hvattir til að kíkja við í Vin.

Tónlistarverslunin og útgáfan 12 Tónar, Skólavörðustíg og nú líka í Kaupmannahöfn, gefur vinninga á afmælismótið. Tefldar verða 7 mínútna skákir og eru allir hjartanlega velkomnir. Kaffiveitingar að loknu móti. Þátttaka er ókeypis.

Hrókurinn hefur staðið fyrir æfingum, fjölteflum, kennslu og skákmótum í Vin sl. þrjú ár og eru æfingar hjá skákfélagi Vinjar á mánudögum kl. 13.

Vin er eitt athvarfa Rauða kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir og er staðsett að Hverfisgötu 47, Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×