Innlent

950 ár frá vígslu fyrsta íslenska biskupsins

Mikið verður um dýrðir í Skálholti í dag en Skálholtshátíð er haldin um helgina. Hátíðin er með nokkuð sérstöku móti að þessu sinni vegna þess að í ár er þess minnst að 950 ár eru liðin frá biskupsvígslu Ísleifs Gissurarsonar, fyrsta íslenska biskupsins. Með þeim atburði varð Ísland að biskupsdæmi í miðaldakirkjunni og um leið komst Ísland inn á landabréf Evrópu þess tíma. Samkoman í dag hefst klukkan eitt þegar slagverkshópur hefur hljóðfæraslátt framan við kirkjuna. Farin verður hópreið heim á staðinn með fánaborg, trompetleikarar leika í turni kirkjunnar, Gunnar Eyjólfsson leikari les Ísleifsþátt og pílagrímar, sem gengið hafa frá Þingvöllum um helgina, ganga í hlað í Skálholti. Hátíðarmessa hefst svo klukkan tvö þar sem Sigurbjörn Einarsson biskup prédikar. Að loknu kirkjukaffi verður aftur samkoma í kirkjunni með hljóðfæraleik. Þar flytja ávörp forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Karl Sigurbjörnsson biskup, og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Fjórir norrænir biskupar eru viðstaddir hátíðarhöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×