Innlent

Allur úrgangur endurunninn

Moltugerð á Sauðárkróki í tilraunaskyni gaf það góða raun að innan tíðar verður farið að vinna 18 rúmmetra af úrgangi á dag í þremur stórum tromlum. Hlutafélagið Jarðgerð stendur fyrir því að nýta með þessum hætti allan lífrænan úrgang sem til fellur hjá sveitarfélaginu og nágrenni, sem ekki er hægt að nýta í fóðurgerð.

Hertar reglur um frágang úrgangs frá fiskvinnslu og sláturhúsum hafa neytt sveitarfélögin í landinu til að leita annarra leiða en að urða lífrænan úrgang. Ágúst Viðar Andrésson hjá Jarðgerð hf. telur að ekki sé til hagkvæmari kostur en moltugerð. Á henni hagnist fyrirtækin, sveitarfélagið og síðast en ekki síst náttúran. Fjárfestingin nemur um 100 milljónum króna og krafist verður móttökugjalds.

Framkvæmdir við byggingu stöðvar hefst í útjaðri Sauðárkróks á næstu dögum en stórar tromlur, sem velta úrganginum uns hann breytist í nýtanlega moltu, verða teknar í gagnið í október.

Fáar reglur munu vera í gildi hér á landi um notkun moltu, en Jarðgerð hf. hefur miðað við Evrópustaðla og aðferðir Finna, sem verið hafa frumkvöðlar á þessu sviði og fyrirmynd Skagfirðinga í þessum efnum.

Í nafni samstarfs fremur en samkeppni fylgjast sveitarfélögin vel hvert með öðru á þessu sviði. Tilraunatromla Sauðkrækinga, sem notuð hefur verið með góðum árangri um skeið, verður nú send Akureyringum, sem sýnt hafa moltugerð mikinn áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×