Innlent

Umfangsmikil GSM uppbygging Og Vodafone í Eyjafirði

Og Vodafone hefur nú lokið umfangsmikilli uppbyggingu á GSM kerfi fyrirtækisins á ákveðnum svæðum í Eyjafirði. Uppbyggingin hófst við Sörlagötu á Akureyri í febrúar á þessu ári en lauk við Klauf/Hrafnagil um helgina.

Nýjasta GSM stöðin bætir samband á flugvellinum á Melgerðismelum og Hrafnagili en þar er hótel, samkomuhús, söfn og íbúðarhús. Þá má gera ráð fyrir að uppbyggingin muni nýtast vel um verslunarmannahelgina þar sem von er á miklum fjölda gesta á fjölskylduhátíðina Ein með öllu á Akureyri.

Einnig má geta þess að Og Vodafone hefur komið fyrir nýrri GSM stöð í Öxnadal, sem nær frá Bægisá og upp alla Bakkaselsbrekku. Þessi stöð kom að góðum notum þegar hljómsveitin SigurRós hélt tónleika við bæinn Háls í Öxnadal á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×