Innlent

Hert eftirlit á Keflavíkurflugvelli

MYND/Vísir

Eftir fund lögreglu- og flugmálayfirvalda á Keflavíkurflugvelli í morgun var ákveðið að herða eftirlit á vellinum. Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, felur það meðal annars í sér að leit á farþegum og í farangri verður ítarlegri en ella en ætti þó ekki að valda miklum töfum. Einnig hefur borist sú krafa frá bandarískum yfirvöldum að séð verði til þess að enginn vökvi verði í handfarangri fólks sem fer héðan til Bandaríkjanna. Það tekur meðal annars til sápu, tannkrems, hárgels og annars slíks.

Einu undantekningarnar eru að taka má um borð í vélar mjólk handa kornabörnum, insúlín og önnur nauðsynleg lyf. Vegna þessa hefur þurft að kalla út frekari mannskap sem verður falið að sjá til þess að farið verði eftir þessu.

Flug Icelandair félagsins til Heathrow flugvallar í Lundúnum í morgun hefur verið seinkað um óákveðinn tíma að tilmælum breskra yfirvalda. Nú er staðan sú að flugheimild hefur verið gefin klukkan hálf fimm síðdegis en önnur vél Icelandair átti samkvæmt áætlun að fara klukkan tíu mínútur yfir fjögur. Sú vél hefur heimild klukkan sex. Tekið er fram að þessi áætlun geti breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×