Viðskipti erlent

Olíuverð lækkar í kjölfar vopnahlés

Olíuborpallur.
Olíuborpallur. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um rúman Bandaríkjadal á helstu mörkuðum í dag í kjölfar vopnahlés Ísraels og Hizbollah-skæruliða, sem tók gildi klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma.

Olíuverðið lækkaði um 1,35 dali á mörkuðum í Bandaríkjunum og fór í 73 dali á tunnu fyrir hádegi. Verð á Norðursjávarolíu lækkaði sömuleiðis um 1,37 dali á tunnu á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór í 74,26 dali á tunnu.

Að sögn fréttastofu Reuters lækkaði olíuverðið um 41 sent í síðustu viku í kjölfar þess að komið var í veg fyrir hryðjuverkaárásir í flugvélum á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um 20 prósent það sem af er árs, m.a. vegna árása skæruliða á olíuvinnslustöðvar í Nígeríu, kjarnorkuáætlun Írana og átakanna í Miðausturlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×