Innlent

Ólíklegt að friðargæsluliðar verði kallaðir heim

MYND/GVA
Engar ákvarðanir voru teknar um framtíð friðargæslunnar á Srí Lanka á fundi Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra með starfsbróður hennar frá Noregi sem fram fór í morgun. Ólíklegt er þó talið að íslensku friðargæsluliðarnir verði kallaðir heim.



Valgerður fundaði með Jonas Gahr Støhre, utanríkisráðherra Noregs, í utanríkisráðuneytinu í morgun og var þar rætt vítt og breitt um samstarf þjóðanna og sameiginleg hagsmunamál, svo sem sjóræningjaveiðar, stöðuna í síldarmálum og Evrópumál.

Ástandið á Srí Lanka þar sem friðargæsluliðar frá Íslandi og Noregi hafa verið að störfum var hins vegar það mál sem fyrirfram var búist við að yrði í brennidepli enda hafa rósturnar þar aukist mjög að undanförnu. Engar ákvarðanir voru teknar á fundinum um framtíð þess, öllum möguleikum er haldið opnum.



Þrír kostir eru í stöðunni, að kalla friðargæsluliðana heim, halda óbreyttu liði, eða fjölga í liðinu. Eins og heyra mátti á orðum Valgerðar er ólíklegt að fyrsti kosturinn verði ofan á en miðað við vaxandi spennu er tæpast hægt að halda óbreyttu liði. Því er talið líklegast að bæði Íslendingum og Norðmönnum verði fjölgað enda hafa Norðmenn sótt það allfast. Ákvörðunin liggur fljótlega fyrir.

Átökin á Sri Lanka héldu áfram í dag en sjö manns létust í árás Tamíltígranna á bílalest pakistanskra erindreka í Colombo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×