Erlent

Útilokar ekki að fjölga friðargæsluliðum

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, leggur mikla áherslu á þátttöku Íslendinga í friðargæslu á Srí Lanka. Ákvörðun verður tekin síðar í vikunni en Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra útilokar ekki að íslenskum friðargæsluliðum verði fjölgað, þrátt fyrir vaxandi ólgu.

Valgerður og Gahr Støre ræddu í morgun um samstarf ríkjanna og sameiginleg hagsmunamál, svo sem sjóræningjaveiðar og síldarmál. Ástandið á Srí Lanka þar sem friðargæsluliðar frá Íslandi og Noregi hafa verið að störfum var í brennidepli á fundinum enda hafa rósturnar þar aukist mjög að undanförnu. Gahr Støre segir þróunina uggvænlega og því hafi Norðmenn og Íslendingar sérstökum skyldum að gegna.

Þrír kostir eru í stöðunni. Sá fyrsti er að kalla friðargæsluliðana heim, en eins og heyra mátti á norska utanríkisráðherranum er það ólíklegt. Í ljósi versnandi ástands og þeirrar staðreyndar að hinar Norðurlandaþjóðirnar eru farnar af vettvangi er ósennilegt að haldið verði í horfinu og þá er aðeins einn kostur eftir, að fjölga í liðinu.

Hvort íslenska friðargæslan sé yfirleitt tilbúin til að takast á við þær aðstæður sem nú ríkja á Srí Lanka verður eflaust rætt næstu daga í ráðuneytinu en ákvörðunin á að liggja fyrir á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×