Innlent

Nauðsynlegt að breyta Íbúðalánasjóði fyrir áramót

Seðlabankastjóri telur algjörlega nauðsynlegt fyrir efnahags- og hagstjórnina að gera breytingar á Íbúðalánasjóði fyrir áramót. Félagsmálaráðherra bíður eftir niðurstöðu starfshóps um málið.

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,5 prósentustig og eru þeir nú þrettán komma fimm prósent. Fram kom í máli Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra að þótt ýmis merki væru um minnkandi þenslu, t.d. á húsnæðis- og bílamarkaði, skorti ótvíræðar vísbendingar um lækkun verðbólgu. Því hefðu stýrivextir verið hækkaðir.

Seðlabankastjóri útilokar ekki frekari vaxtahækkanir en segist farinn að sjá fyrir endann á vaxtahækkunartímabilinu. Hann telji að það verði líklega eftir áramót.

Fyrir liggja hugmyndir frá ríkisstjórninni um að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka og segir Davíð mikilvægt fyrir efnahagsstjórnina að hverfa ekki frá því. Það hafi mikla þýðingu að slíkum yfirlýsingum sé fylgt eftir og menn séu ekki að draga lappirnar af einhverjum ástæðum. Hann telji algjörlega nauðsynlegt að gera það fyrir áramót.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segist ekki geta sagt til um það hvort hann leggi fram frumvarp á haustþingi um breytingar á Íbúðalánasjóði. Hann bíði niðurstöðu starfshóps sem fari yfir málefni stofnunarinnar. Vonandi skili hann skýrslu fyrir næstu mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×