Innlent

ASÍ og SA segja stýrivaxtahækkun misráðna

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, á ársfundi sambandsins.
Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, á ársfundi sambandsins. MYND/Valgarður Gíslason

Bæði Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins telja vaxtahækkun Seðlabanka Íslands í gær misráðna. Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í gær um 0,5 prósentustig, í 13,5%. Í kjölfarið hækkaði Landsbankinn vexti og síðar Sparisjóðirnir og Glitnir.

Á heimasíðu ASÍ er því spáð að nýjasta stýrivaxtahækkun seðlabankans leiði til harðrar lendingar í íslensku atvinnulífi á næsta ári. Hagvöxtur muni minnka, kaupmáttur líka og atvinnuleysi aukast. Gengi krónunnar gæti einnig styrkst enn frekar og stuðlað að því að viðskiptahalli við útlönd leiðréttist hægar. ASÍ bendir á að áhrif af vaxtaákvörðun Seðlabankans skili sér út í hagkerfið á löngum tíma. Nú þegar séu teikn á lofti um lækkandi verðbólgu og því sé vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær mistök.

Á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins er að finna svipaða gagnrýni. Samtökin segja ákvörðunina byggja á röngu mati á þróun mála á tveimur lykilmörkuðum hagkerfisins, vinnumarkaðnum og fasteignamarkaðnum. Brýnt sé að Seðlabankinn gangi í takt við efnahagslífið og taki mark á öllum þeim teiknum sem nú séu um niðursveifluna í efnahagslífinu. Samtök atvinnulífsins telja að Seðlabankinn verði að lækka stýrivexti strax við næstu vaxtaákvörðun bankans í september. Eins og staðan sé nú gæti Seðlabankinn gert að engu þá atlögu að verðbólgunni sem Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og ríkisstjórnin hafi staðið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×