Innlent

Hagfræðingar Alþýðusambandsins telja ríkið bera ábyrgð

Hagfræðingar Alþýðusambandsins telja ríkisvaldið bera mikla ábyrgð á þenslunni í efnahagslífinu, með því að hafa ekki dregið úr framkvæmdum á sama tíma og ráðist var í stórfellda uppbyggingu stóriðju. Forsvarsmenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins telja stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands byggja á röngum forsendum.

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í gær um 0,5 prósentustig, í 13,5%. Sama dag hækkuðu Landsbankinn, Sparisjóðirnir og Glitnir sína vexti.

Samtök atvinnulífsins segja ákvörðunina byggja á röngu mati á þróun mála á tveimur lykilmörkuðum hagkerfisins, vinnumarkaðnum og fasteignamarkaðnum. Undir þetta taka hagfræðingar Alþýðusambands Íslands. Þeir minna á að ASÍ hafi gagnrýnt hið opinbera harkalega fyrir að draga ekki úr öðrum framkvæmdum meðan unnið var að byggingu stóriðju. Verðbólgan hefði aldrei orðið jafn mikil ef brugðist hefði verið við þeirri gagnrýni og því sé slæmt til þess að vita að nú, þegar öll merki séu um að hagkerfið sé að hægja á sér sé gripið til enn ferkari hækkunar á stýrivöxtum. Líklegt sé að þau muni leiða til harðrar lendingar í Íslensku efnahagslífi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×