Innlent

Hvalur 9 í slipp í dag

Hvalur níu, eitt af fjórum hvalveiðiskipum Hvals hf., var tekið í slipp í dag í fyrsta skipti í sautján ár. Stjórnarformaður Hvals heldur í vonina um að hvalveiðar verði leyfðar.

Hópur manna var kominn saman niður við Reykjavíkurhöfn í dag þegar Hvalur níu var dreginn upp í Slippinn. Þetta er í fyrsta sinn sem það er gert síðan 1989 þegar hvalveiðibann tók gildi.

Meðal þeirra sem skoðuðu skipið var stjórnarformaður Hvals, Kristján Loftsson. Hann segir að við fyrstu sýn virðist það í ágætu ásigkomulagi. Fróðir menn hafi sagt honum að gróðurinn hafi ekki verið mikill á skipinu miðað við hversu langt sé síðan það hafi farið í slipp. Aðspurður hvort hann hafi heyrt einhver ávinning af því að leyfa eigi hvalveiðar á ný segist Kristján ekkert vita um það. Það sé þó gott að skip verði til ef veiðarnar verði leyfðar.

Kristján segir hvalstöðina í Hvalfirði ágætu standi og telur að það tæki fyrirtækið um mánuð að gera sig klárt ef hvalveiðar yrðu leyfðar. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur ítrekað lýst því yfir hann vilji hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Kristján vonar að hann taki af skarið áður en kjörtímabilið er úti

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir engar ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvalveiðar í atvinnuskyni. Aðspurður sagðist hann þó vona að það yrði í hans ráðherratíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×