Körfubolti

Auðvelt hjá Bandaríkjamönnum

Dwyane Wade var atkvæðamestur Bandaríkjamanna gegn Slóvenum
Dwyane Wade var atkvæðamestur Bandaríkjamanna gegn Slóvenum NordicPhotos/GettyImages

Bandaríkjamenn tryggðu sér í dag sæti í 16-liða úrslitunum á HM í körfubolta þegar þeir lögðu Slóvena nokkuð örugglega í Sapporo 114-95. Sigur Bandaríkjamanna var aldrei í hættu í dag en á morgun mætir liðið sterku liði Ítala sem er taplaust í keppninni til þessa. Dwyane Wade var stigahæstur Bandaríkjamanna með 20 stig, LeBron James skoraði 19 stig og Elton Brand skoraði 16 stig.

Sani Becirovic var stigahæstur í liði Slóvena með 18 stig og NBA-leikmennirnir Primoz Brezec og Bostjan Nachbar skoruðu 15 hvor.

Portó Ríkó lagði Kína í framlengdum leik 90-87, þar sem Yao Ming skoraði 29 stig fyrir Kínverja áður en hann þurfti að fara af leikvelli með 5 villur um miðjan 4. leikhluta. Elias Ayuso skoraði 9 af 27 stigum sínum fyrir Portó Ríkó í framlengingunni og Carlos Arroyo skoraði 25 stig. Yao Ming og Carlos Arroyo eru tveir stigahæstu mennirnir í keppninni. Kínverjar hafa þar með tapað öllum þremur leikjum sínum, en Portó Ríkó hefur unnið tvo og tapað einum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×