Innlent

Fékk 250 þúsund króna hækkun á mánuði

Launakostnaður vegna bæjarstjóra Árborgar er 250 þúsund krónum meiri en á síðasta kjörtímabili, auk ótakmarkaðs aðgangs að bíl á vegum sveitarfélagsins. Samfylkingin segir þetta ganga í berhögg við kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um sparnað í fjármálum sveitarfélagsins.

Launatengdur kostnaður vegna bæjarstjóra Árborgar, Stefaníu Katrínar Karlsdóttur, er tæp ein komma tvær milljónir á mánuði og hefur hækkað um 250 þúsund síðan á síðasta kjörtímabili, þegar Einar Njálsson var bæjarstjóri. Þá er ótalinn kostnaður sveitarfélagsins við bíl sem sveitarfélagið hefur á rekstrarleigu og borgar rúmar 100 þúsund krónur á mánuði fyrir. Þar ofan á bætist bensínkostnaður og allur rekstrarkostnaður af bílnum sem sveitarfélagið borgar en bæjarstjórinn hefur ótakmörkuð afnot af bílnum.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, segir þetta stinga í stúf við stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sem sagðist myndu taka til hendinni og skera niður kostnað við yfirbyggingu sveitarfélagsins. Hún segir Sjálfstæðisflokkinn hafa farið mikinn og lofað sparnaði í rekstrarkostnaði og launakostnaði ráðhússins.

Aðspurð hvort ekki sé bara verið að hækka laun bæjarstjórans til jafns við það sem gerist og gengur í sveitarfélögum af sambærilegri stærð segir hún að það sé vissulega það sem meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna haldi fram en að engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings um launakostnað í öðrum sveitarfélögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×