Innlent

Actavis gerir gagntilboð í tékkneska fyrirtækið Pliva

Actavis hefur gert gagntilboð í tékkneska fyrirtækið Pliva en fyrirtækið hefur barist við lyfjafyrirtækið Barr um að ná yfirhöndinni í fyrirtækinu. Tilboð Actavis er nú til skoðunar hjá Fjármálaeftirliti Króatíu.

Gera má ráð fyrir að fjármálaeftirlitið staðfesti tilboð Actavis á næstu dögum og þá ber stjórn Pliva skylda til að leggja mat á það tilboð og verði það hærra en tilboð Barr má telja líklegt að stjórnin styðji tilboðið. Ekki hefur verið gefið upp hve hátt tilboð Actavis er í Pliva að þessu sinni en áður hafði fyrirtækið boðið 2,3 milljarða bandaríkjadala.

Að sögn Halldórs Kristmanns, upplýsingafulltrúa Actavis eru menn hæfilega bjartsýnir á tilboði sýnu verði tekið en hluthafar hafa 30 daga til að ákveða hvoru tilboðinu þeir taki. Hann segir stöðu Actavis innan Pliva sterka, fyrirtækið eigi 21 prósent í hlut í því en þeir séu ekki tilbúnir til að yfirborga fyrir félagið. Fari svo að Barr yfirborgi þá mun Actavis alvarlega skoða það hvort þeir gangi frá tilboðinu, selji sinn hlut í Pliva og leiti annarra tækifæra.

Baráttan um Pliva hefur staðið í nokkra mánuði og fyrir nokkrum vikum jók Actavis hlutafé sitt umtalsvert til að standa betur í yfirtökutilraun sinni. Helsti kosturinn við að ná eignarhaldi á Pliva er aðgangur fyrirtækisins að bæði vestrænum mörkuðum og lyfjamarkaði í Rússlandi ásamt lægri framleiðslukostnaði í Tékklandi en víðast hvar á Vesturlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×