Innlent

Valgerður vissi ekki af athugasemdum Gríms

Valgerður Sverrisdóttir fékk ekki athugasemdir Gríms Björnssonar í sínar hendur fyrr en eftir að lög sem heimiluðu Kárahnjúkavirkjun voru samþykkt á Alþingi. Hún var ekki viðstödd fund með Landsvirkjun þar sem athugasemdirnar voru ræddar og svör frá Landsvirkjun vegna þeirra bárust ekki ráðherra fyrr en um það leyti sem lögin voru samþykkt.



Valgerður hefur verið harkalega gagnrýnd að undanförnu fyrir að leyna athugasemdunum fyrir Alþingi. Athugasemdirnar komu frá Grími Björnssyni, jarðeðlisfræðingi, en hann samdi þær á meðan hann lá heima veikur í febrúar 2002. Hann sendi síðan Þorkatli Helgasyni orkumálastjóra athugasemdirnar sem fljótlega hafði samband við Landsvirkjun vegna þeirra. Skömmu síðar var haldinn fundur hjá Landsvirkjun þar sem sérfræðingar Landsvirkjunar fóru yfir athugasemdir Gríms og svöruðu þeim. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að athugasemdirnar og svör sérfræðinganna hafi ekki verið send til Valgerðar Sverrisdóttur til umfjöllunar heldur var fundað um málið innan iðnaðarráðuneytisins. Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Valgerður það óheppilegt að hún hafi ekki tekið þátt í efnislegri umfjöllun um athugasemdirnar áður en lögin voru staðfest á Alþingi en stendur við það sem hún hefur áður sagt að athugasemdirnar hafi ekki gefið tilefni til að farið væri í sérstaka vinnu vegna þeirra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×