Sport

West Ham kaupir tvo Argentínumenn

West Ham er nú komið með einn efnilegasta og eftirsóttasta framherja heimsins í sínar raðir
West Ham er nú komið með einn efnilegasta og eftirsóttasta framherja heimsins í sínar raðir NordicPhotos/GettyImages

West Ham hefur svo sannarlega stolið sviðsljósinu á síðasta deginum til félagaskipta í Evrópuboltanum, en félagið hefur gengið frá kaupum á tveimur af efnilegustu leikmönnum argentínska landsliðsins, þeim Carloz Tevez og Javier Mascherano frá brasilíska liðinu Corinthians.

Leikmennirnir eru báðir 22 ára gamlir og ekki laust við að þessi tíðindi hafi komið sem köld vatnsgusa framan í sparkspekinga því mörg af stærri félögum Evrópu hafa lengi haft augastað á leikmönnunum tveimur sem voru báðir með gríðarlega háa verðmiða festa við bakið á sér.

Talið er að tengsl West Ham við fyrirtækið Media Sport Investments hafi greitt fyrir kaupunum, en fyrirtækið átti kaupréttinn á þeim báðum. MSI gerði fyrir nokkrum misserum yfirtökutilboð í West Ham, en því var hafnað. Leikmennirnir tveir hafa þegar gengið frá samningum við enska félagið og hafa snúið aftur til æfinga með argentínska landsliðinu í Lundúnum, þar sem það undirbýr sig fyrir æfingaleik við Brasilíumenn á sunnudag - en þess má geta að sá leikur verður sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×