Innlent

Mikil endurnýjun í þingmannahópnum

Mikil endurnýjun verður í þingmannahópnum við upphaf næsta kjörtímabils. Sjö þingmenn hafa hætt á kjörtímabilinu og aðrir sjö tilkynnt að þeir hyggist hætta við lok kjörtímabilsins.

Við þingsetningu í gær gerði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, meðal annars þá þróun að umtalsefni sínu að margir reyndir þingmenn væru að hverfa á brott af þingi. Sú þróun væri einnig að eiga sér stað að þingmenn stöldruðu líka styttra við en áður.

Ef litið er á þær breytingar sem orðið hafa á kjörtímabilinu sést að af sextíu og þremur þingmönnum hafa sjö horfið af vettvangi stjórnmála. Árni Magnússon fór úr félagsmálaráðneytinu til Glitnis. Bryndís Hlöðversdóttir er núna aðstoðarrektor á Birföst. Davíð Oddsson tók við starfi Seðlabankastjóra. Guðmundur Árni Stefánsson gerðist sendiherra í Svíþjóð. Gunnar I. Birgisson tók við bæjarstjórastólnum í Kópavogi. Halldór Ásgrímsson hætti sem forsætisráðherra og Tómas Ingi Olrich er í sendiráðinu í París.

 

Aðrir sjö reyndir þingmenn hafa tilkynnt að þeir ætli að hætta þingmennsku að kjörtímabilinu loknu en þetta eru þau Guðmundur Hallvarðsson, Halldór Blöndal, Jóhann Ársælsson, Jón Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sólveig Pétursdóttir.

Ljóst er því að rúmur fimmtungur þeirra þingmanna sem kjörinn var í síðustu kosningum kemur til með að sinna öðrum störfum en þingmennsku að kjörtímabilinu loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×