Innlent

Forseti Íslands sækir Rannsóknarþing Norðursins í Finnlandi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. MYND/Gunnar V. Andrésson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sækir Rannsóknarþing Norðursins sem hefst í Oulu í Finnlandi á morgun. Tarja Halonen, forseti Finnlands, setur þingið árdegis og flytur forseti Íslands einnig ávarp við opnun þess.

Í tilkynningu frá forsetaskrifstofu kemur fram að Rannsóknarþing Norðursins var stofnað að frumkvæði forseta Íslands fyrir 6 árum og var stofnfundurinn haldinn á Akureyri og á Bessastöðum árið 2000. Skrifstofur Rannsóknarþingsins hafa frá upphafi verið í Háskólanum á Akureyri. Meðal viðfangsefna þess eru atvinnulíf og tækniþróun á norðurslóðum, samvinna á sviði efnahagslífs og menningar, umhverfismál, jafnréttismál og réttindi þjóðarbrota, löggjöf og samgöngur.

Rannsóknarþingi er að þessu sinni helgað viðfangsefninu Norðurslóðir án landamæra og það sækja fræði- og vísindamenn af ólíkum sviðum, sveitastjórnarmenn, forystumenn í atvinnulífi og fulltrúar frumbyggja. Þátttakendur á þinginu eru frá Bandaríkjunum, Kanada, Norðurlöndunum og Rússlandi.

Fram kemur í tilkynningu frá forsetaskrifstofu að forsetar Íslands og Finnlands efni til viðræðurfundar um vaxandi samvinnu landanna á sviði viðskipta, vísinda og menningar, sem og um sameiginlegan áhuga þeirra á málefnum þróunarlanda. Forseti Íslands mun síðan ræða sérstaklega við ýmsa þátttakendur á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×