Körfubolti

Ætlum að vinna allt í vetur

Magnús Þór Gunnarsson og félaga í Keflavík er farið að þyrsta í að lyfta bikar á ný
Magnús Þór Gunnarsson og félaga í Keflavík er farið að þyrsta í að lyfta bikar á ný Mynd/Heiða

Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður körfuknattleiksliðs Keflavíkur, segðist sáttur við sigurinn á Skallagrími í gærkvöldi þó leikmenn eigi enn eftir að slípa sig betur saman. Hann segir stefnu Keflvíkinga hiklaust setta á að vinna alla titla sem í boði eru í vetur og þar sé Evrópukeppnin engin undantekning.

"Við vorum dálítið ryðgaðir í kvöld og eigum eftir að slípa liðið betur saman, eins og líklega öll liðin sem spila í undanúrslitunum," sagði Magnús eftir sigurinn á Skallagrími í undanúrslitum Powerade bikarsins í Laugardalshöll í gærkvöld. Hann segir Keflvíkinga taka þessa keppni alvarlega eins og aðrar keppnir í vetur.

"Það er auðvitað bikar í boði fyrir sigur í þessari keppni og þess vegna tökum við þessa keppni alvarlega. Við höfum venjulega verið á fullu í Evrópukeppni þegar þessi keppni fer fram en það er engin afsökun og við ætlum okkur að taka þetta núna," sagði Magnús, sem á von á hörku baráttu í körfunni í vetur.

"Ég held eigi einhver lið eftir að koma á óvart í vetur. Tindastóll er með hörku lið sem vann Snæfell, en Snæfell er með fínt lið líka, Skallagrímur, Grindavík, KR, Njarðvík, jafnvel Haukar - ásamt Keflavík - þetta verða sex til sjö lið sem verða í baráttunni í vetur.

Við erum samt orðnir mjög hungraðir hérna í Keflavík og erum orðnir leiðir á því að tapa svo við ætlum að vinna alla titla sem í boði eru í vetur. Við ætlum okkur líka langt í Evrópukeppninni, en þar höfum við sýnt að við getum staðið í hvaða liði sem er. Við bætum þar við okkur einum útlendingi og þá verður ekkert lið sem getur stöðvað okkur," sagði kappsfullur Magnús Gunnarsson í samtali við Vísi í gærkvöld.

Keflvíkingar fá tækifæri til að vinna sinn fyrsta titil á morgun þegar liðið mætir grönnum sínum úr Njarðvík í úrslitaleik klukkan 16. Úrslitaleikurinn í kvennaflokki hefst klukkan 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×