Innlent

Sækja mannskap á nýju þyrluna frá Noregi

Landhelgisgæslan fékk í dag nýja þyrlu, sem er sömu gerðar og TF-LÍF og er hún leigð frá Noregi. Tveir norskir flugmenn komu með þyrlunni og koma þeir til með að starfa hér á landi næsta árið þar sem Gæsluna skortir þjálfaðan mannskap.

Þyrlan er leigð hjá fyrirtækinu Airlift í Noregi. Hún flaug frá Noregi í morgun með viðkomu í Færeyjum á leið til Íslands. Hún er Puma þyrla og er svipuð TF-LÍF. Þetta er fyrsta þyrlan af þremur sem bætast í hóp þeirra tveggja sem Gæslan á fyrir. Landhelgisgæslan hefur unnið að því að þjálfa fólk til starfa á nýju þyrlunum en Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að fyrsta árið verði tveir norskir þyrluflugmenn hér við störf.

Koma þyrlunnar er liður í eflingu Landhelgisgæslunnar vegna brotthvarfs þyrlusveitar Varnarliðsins. Georg telur að Landhelgisgæslan sé með nýjum þyrlum mjög vel í stakk búin að takast á við verkefnin sem þyrlusveit Varnarliðsins aðstoðaði áður við.

Landhelgisgæslunni var í gær veitt flugrekstrarleyfi frá Flugmálastjórn Íslands sem að gerir Gæslunni kleift að fá vélarnar leigðar.

Stefnt er að því að kaupa nýjar þyrlur, sem verður þó líklega ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×