Viðskipti innlent

Barr með rúm 70 prósent í Pliva

Höfuðstöðvar Pliva í Zagreb í Króatíu.
Höfuðstöðvar Pliva í Zagreb í Króatíu.

Bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Barr er komið með 72,67 prósent hlutbréfa í króatíska samheitalyfjafyrirtækinu Pliva. Barr hefur att kappi við Actavis um yfirtöku á Pliva síðan fyrr á þessu ári en áhugi lyfjafyrirtækja á króatíska fyrirtækinu vaknaði ekki fyrr en Actavis gerði tilboð í fyrirtækið í mars.

Ekki liggur fyrir hverjur seldu Barr bréf sín en þegar tilboðsferli í bréf í félaginu hófst átti Barr engin bréf í Pliva en Actavis rúman fimmtungshlut með beinum og óbeinum hætti. Viðskiptatímaritið Business Week hefur eftir króatískum fjölmiðlum á vefsíðu sinni í dag að Actavis kunni að hafa selt einhverja af hlutum sínum í félaginu.

Yfirtökutilboð Barr í Pliva hljóðar upp á 820 kúnur á hlut en tilboð Actavis hljóðar upp á 795 kúnur, sem samsvara 175 milljörðum króna.

Kapphlaupið rennur út á miðnætti í kvöld og verður greint frá niðurstöðu málsins á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×