Viðskipti innlent

Starfs­fólki fjölgar hjá RÚV en hríðfækkar í bransanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán Eiríksson hugðist láta af störfum sem útvarpsstjóri eftir eitt skipunartímabil. Honum snerist hugur og stýrir enn gangi mála í Efstaleiti.
Stefán Eiríksson hugðist láta af störfum sem útvarpsstjóri eftir eitt skipunartímabil. Honum snerist hugur og stýrir enn gangi mála í Efstaleiti. Vísir/Vilhelm

Starfsfólki við einkarekna fjölmiðla hefur hríðfækkað undanfarinn áratug á meðan Ríkisútvarpið hefur bætt við sig starfsfólki. Umfang RÚV er hlutfallslega langmest af öllum ríkisfjölmiðlum á Norðurlöndum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs. Frá hruni hefur starfsfólki á einkareknum fjölmiðlum fækkað um 69 prósent en 16 prósent á RÚV.

Viðskiptaráð hefur gert samanburð á umsvifum fjölmiðla hér á landi. Niðurstaðan er sú að umsvif einkarekinna fjölmiðla hefur minnkað undanfarin ár á sama tíma og vægi hins opinbera á sama markaði fer vaxandi og erlenda samkeppni eykst.

„Vinda ætti ofan af þeim skekkjum sem eru á fjölmiðlamarkaði þannig að heilbrigð samkeppni fái þrifist og innlendir miðlar geti dafnað án opinberra afskipta,“ segir í skýrslu Viðskiptaráðs.

Ekki keppt á jafnræðisgrundvelli

Fram kemur í skýrslunni að rekstrarumhverfi fjölmiðla hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Fjölmiðlun og dagskrárgerð hafi færst í auknum mæli á vef- og samfélagsmiðla og samkeppni við erlenda miðla aukist.

„Lagaumhverfið á Íslandi gerir það að verkum að innlendir miðlar keppa ekki á jafnræðisgrundvelli við þá erlendu. Samhliða harðnandi samkeppni fer vægi ríkisins á fjölmiðlamarkaði sífellt vaxandi. Fyrir vikið hafa einkareknir fjölmiðlar aldrei átt jafn mikið undir högg að sækja,“ segir í skýrslu Viðskiptaráðs.

Ráðið vísar í tölur frá Hagstofu Íslands og segir starfandi hjá einkareknum fjölmiðlum hafa fækkað um 69 prósent frá 2008, eða úr 2.040 manns í 640. Á sama tímabili hafi starfandi hjá Ríkisútvarpinu fækkað um 16 prósent, úr 320 í 270.

Sé litið til síðasta áratugs hefur heldur fjölgað í starfsteymi RÚV á meðan verulega hefur fækkað á einkareknum miðlum.

Undanfarinn áratug hefur starfsfólki RÚV fjölgað en fækkað verulega hjá einkareknum fjölmiðlum.

„Frá hagræðingaraðgerðum hjá RÚV árið 2013 hefur starfandi hjá stofnuninni fjölgað um 13% samanborið við 62% fækkun á einkareknum miðlum. Þannig hefur umfang einkarekinna fjölmiðla dregist saman, hvort sem litið er til fjölda starfandi eða í samanburði við RÚV.“

Hlutdeild RÚV hækkað á Íslandi

Ástæða þróunarinnar er sögð greinilega sé litið til auglýsingatekna.

„Hlutdeild innlendra einkarekinna fjölmiðla í auglýsinga-tekjum hefur minnkað um 39 prósentustig, úr 81% árið 2009 niður í 42% árið 2023. Þróunina má helst rekja til tekjuaukningar erlendra miðla, en hlutdeild þeirra fór úr 4% upp í 49% yfir tímabilið. Innreið samfélagsmiðla skýrir að öllum líkindum stóran hluta þeirrar þróunar sem orðið hefur.“

Höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins í Efstaleiti.Vísir/Vilhelm

Minnt er á að ýmsar kvaðir hvíli á innlendum fjölmiðlum sem erlendir miðlar þurfi ekki að fara eftir.

„Slíkar kvaðir geta gert erlenda miðla að álitlegri kosti til birtinga á auglýsingum og veikt stöðu innlendra miðla. Dæmi um slíkt er bann við áfengisauglýsingum í innlendum miðlum, hömlur á auglýsingar veðmálastarfsemi og kröfur um að erlent efni sé texta- eða talsett á íslensku.“

Á sama tímabili hafi hlutdeild RÚV á auglýsingamarkaði einungis lækkað um 5 prósentustig, eða úr 14 prósentum í 9 prósent.

„Ríkisfjölmiðillinn hefur því gefið minna eftir til erlendra miðla en einkareknir fjölmiðlar, sem hefur leitt til þess að hlutdeild RÚV í innlendum auglýsingatekjum hefur hækkað.“

Sá eini í virkri samkeppni í auglýsingasölu

Viðskiptaráð skoðar stöðu RÚV miðað við ríkisrekna miðla á hinum Norðurlöndunum.

„Á Íslandi eru umsvif ríkisfjölmiðilsins þau mestu á Norðurlöndum. Markaðshlutdeild RÚV er þannig meiri en hjá ríkismiðlum annarra Norðurlanda. Af heildartekjum fjölmiðla hefur RÚV 27% tekna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en hlutfallið er að jafnaði 10% á öðrum Norðurlöndum.“

Þá sé RÚV eini norræni ríkismiðillinn sem fjármagnaður er með opinberum framlögum en samtímis í virkri samkeppni við einkaaðila um auglýsingatekjur.

Mikil umsvif RÚV og vera miðilsins á auglýsingamarkaði brengli verulega samkeppnisskilyrði annarra fjölmiðla.

„Ríkismiðillinn nýtur bæði framlaga úr ríkissjóði og allir landsmenn eru skyldugir til að vera í áskrift að miðlinum. Í krafti opinberrar meðgjafar og samkeppnisforskots er RÚV þannig aðsópsmeira á auglýsingamarkaði en ella, sem veikir stöðu einkarekinna miðla enn frekar.“

Tólffalt hærra framlag en allir einkareknu til samans

Opinberir styrkir til einkarekinna fjölmiðla hafa hingað til verið helsta tilraun stjórnvalda til að draga úr þeirri skekkju sem framangreind meðgjöf með ríkismiðlinum skapar. Styrkfjárhæð ræðst af stuðningshæfum rekstrarkostnaði, umfangi og fjölda umsókna ár hvert auk annarra skilyrða. Þá fá fjölmiðlar á landsbyggðinni sérstakt 20% álag á upphæð fjölmiðlastyrks.

Viðskiptaráð segir styrkjakerfið hafa orðið til þess að flestir innlendir miðlar fái opinber framlög eða styrki úr ríkissjóði.

Heildarumfang styrkjanna var 470 milljón króna árið 2023 og dreifðust þeir á 25 rekstraraðila. Tveir miðlar hlutu hæsta mögulega styrk og fengu 107 milljónir króna hvor í sinn hlut.

„Samanlagt duga styrkirnir skammt samanborið við opinber framlög til ríkismiðilsins. Á sama ári hlaut RÚV tólffalt hærra framlag en allir einkareknir fjölmiðlar til samans.“

Dagskrárgerð settar þröngar skorður

Framlög ríkissjóðs til framleiðslu eða kaupa á dagskrárefni á Íslandi námu samtals 8,1 milljarði króna árið 2023. Framlögin eru veitt með þrennum hætti: til eða í gegnum framleiðslu og kaup Ríkisútvarpsins, með endur­greiðslum vegna framleiðslu­­kostnaðar kvikmynda eða sjónvarps­efnis, og í gegnum Kvikmyndasjóð Íslands. 

Opinberu framlögin eigi það sammerkt að þeim er ætlað að styðja við framleiðslu íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis. Aftur á móti sé núverandi fyrirkomulag úthlutunar háð nokkrum ann­mörkum sem vinna gegn markmiðum framlaganna. Viðskiptaráð telur til þrjá annmarka.

  • Í fyrsta lagi fór um 20% framlaganna til framleiðslu eða kaupa á erlendu efni árið 2023. Markmið framangreindra framlaga er að styðja við íslenska menningu og framleiðslu á innlendu efni. Það skýtur því skökku við að fjármunirnir séu notaðir til að niðurgreiðsla framleiðslu eða kaup á efni sem hefur ekki skírskotun til íslenskrar menningar.
  • Í öðru lagi er stórum hluta framlaganna ráðstafað af opinberum nefndum með tilheyrandi fyrirhöfn fyrir umsóknaraðila. Til að hljóta styrk úr Kvikmyndasjóði þarf að skila skýringu á söguþræði, handriti eða útdrætti og greinargerð um verkið. Auk þess þarf að fylgja yfirlýsing um sjálfbærni­markmið og -stefnu framleiðslunnar og jafnframt er horft til þess hvort að styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kynjanna í kvikmyndagerð. 
  • Í þriðja lagi fela flókin og ítarleg skilyrði um endurgreiðslur á framleiðslu­kostnaði í sér óbeina opinbera ritstýringu dagskrár­­efnis. Það fellur í skaut þriggja manna opinberrar nefndar að úrskurða hvort framleiðsla kvikmyndar eða sjónvarpsefnis sé styrkhæf á grundvelli matskenndra viðmiða. Styrkhæf verkefni eru þau sem hljóta a.m.k. 23 af 46 stigum mögulegum hjá nefndinni. 

Dæmi um viðmið stigagjafarinnar eru að framleiðslan byggi á sögu­persónu eða einstaklingi úr íslenskum eða evrópskum menningar­arfi, sögu, samfélagi eða trúarbrögðum, að verkefnið beinist að íslenskum eða evrópskum siðum, venjum, menningu eða sjálfs­mynd, að lágmarki séu 51% tökuliðs ríkisborgarar EES ríkis og að framleiðslan auki færni og getu kvikmyndargerðamanna sem koma að verkinu til að standa að verkum sem hafa menningarlegt gildi.

Þá er það óheppilegt að mati ráðsins að blanda óskyldum markmiðum um kynjajafnrétti, aukið vægi landsbyggðar og sjálfbærni inn í kerfi sem ætlað sé að styðja við innlenda dagskrárgerð. 

Flaggað við höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti.Vísir/vilhelm

„Opinber stuðnings-kerfi eiga að vera sem allra einföldust og með sem fæst markmið til að þau virki sem best. Ef mörgum ólíkum markmiðum er blandað saman með þeim hætti sem raunin er í dag verður hlutverk og áhrif stuðnings­kerfisins hvort tveggja óskýrt.“

Að mati Viðskiptaráðs felur núverandi fyrirkomulag í sér ritstýringu hins opinbera á menningarefni. 

„Ef stjórnvöld vilja styðja við fram­leiðslu kvik­mynda- og sjónvarpsefnis ættu viðmið fyrir styrkhæft efni að vera skýr og einföld þannig að huglægt mat eigi sem minnstan þátt í því að úrskurða hver hlýtur slíkan stuðning og hver ekki. Ráðið hvetur stjórnvöld til að taka þessi viðmið og stigagjöf til endurskoðunar með framangreindar athugasemdir leiðarljósi.“

Eftirlit sé til ama

Rifjað er upp að stjórnvöld hafi árið 2011 komið Fjölmiðlanefnd á fót sem sé ætlað að hafa eftirlit með framfylgd fjölmiðlalaga. Þrátt fyrir þann samdrátt sem orðið hafi hjá innlendum fjölmiðlum hafi eftirlits­stofnunin farið stækkandi. Stöðugildi Fjölmiðlanefndar var eitt árið 2011, en þeim hafði fjölgað í sex árið 2023.

Langtímasýn Viðskiptaráðs er að ríkið stígi alfarið út af fjölmiðlamarkaði og eftirláti einkaaðilum þá starfsemi

Eftirlit með starfsemi fjölmiðla er í höndum fleiri en einnar stofnunar en Fjölmiðla­nefnd og Neytendastofa hafa gert milli sín samning um verka­skiptingu við eftirlit með viðskipta­boðum. Að mati Viðskipta­­­­ráðs er ekki þörf fyrir nokkurt slíkt eftirlit. 

„Ef fjölmiðill er staðinn að óvönduðum fréttaflutningi eða dulbúnum auglýsingum af lesendum sínum rýrir það traust þeirra gagnvart viðkomandi miðli. Hvati fjölmiðla er því að flytja vandaðar fréttir og að greina frá viðskipta­boðum án þess að aðkomu stjórnvalda þurfi til.“

Umbætur án opinberra inngripa

Viðskiptaráð segir rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi óheilbrigt. 

„Umsvif ríkisins á markaðnum eru mikil í norrænum samanburði og fara vaxandi. Erlendir miðlar búa á sama tíma við hagfelldara rekstrarumhverfi en þeir innlendu þar sem þeir lúta ekki sömu kvöðum. Helstu viðbrögð stjórnvalda einkennast af bútasaumi frekar en kerfis­breytingum og taka þannig ekki á þeim vanda sem við blasir.“

Færa megi markaðinn í eðlilegt horf með því að draga úr umfangi ríkisins á fjölmiðla­markaði. 

„Annars vegar með því að minnka umsvif RÚV og þannig skapa umhverfi þar sem sjálfstæð og innlend fjölmiðlun fær blómstrað á ný með því að færa rekstrar­umhverfi þeirra til samræmis við erlenda miðla með auknu frjálsræði. Hins vegar þarf að draga úr séríslenskum kvöðum og minnka reglubyrði til að innlendir miðlar geti betur keppt við þá erlendu.“

Langtímasýn Viðskiptaráðs sé að ríkið stígi alfarið út af fjölmiðla­markaði og eftirláti einkaaðilum þá starfsemi. 

„Ráðið telur aftur á móti ekki raunhæft að það eigi sér stað á næstu misserum og hefur því útfært fjórar tillögur sem myndu færa umfang RÚV nær því sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Tillögurnar myndu samhliða bæta rekstrar­umhverfi innlendra einkarekinna fjölmiðla verulega.“

Fjórar tillögur

Viðskiptaráð leggur til fjórar aðgerðir til að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla og jafna umsvif RÚV við ríkismiðla hinna Norðurlandanna.

Tillaga 1: RÚV af auglýsingamarkaði samhliða afnámi fjölmiðla­styrkja

Viðskiptaráð leggur til að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði, líkt og tíðkast með ríkismiðla annarra Norðurlanda. Samhliða breytingunni og bættum möguleikum einkarekinna fjölmiðla til tekjuöflunar verði styrkir til einkarekinna fjölmiðla afnumdir.

Tillaga 2: Samkeppnissjóður um innlenda dagskrárgerð

Viðskiptaráð leggur til að opinberum framlögum til stuðnings við innlenda dagskrárgerð sé úthlutað í gegnum samkeppnissjóð. Í þann sjóð gætu allir sem standa í innlendri dagskrárgerð sótt og hlotið endurgreiðslu á hluta kostnaðar við framleiðslu.

Samhliða því verði horfið frá matskenndum skilyrðum sem framleiðendur þurfa að uppfylla í dag til að hljóta endurgreiðslu. Þess í stað verði einungis gerð krafa um að dagskrárefnið sé á íslensku. Einnig verði ekki gerður greinarmunur á hvers eðlis dagskrárefnið er. Þannig munu framleiðendur á hljóðefni til dæmis einnig geta sótt í sjóðinn og stuðningur myndi fylgja betur framþróun fjölmiðlunar og dagskrárgerðar. Jafnframt leggur ráðið til að hætt verði að greiða fyrir framleiðslu á erlendu efni, en hún er ekki í samræmi við markmið ríkisins um styrk til menningarefnis.

Frjálsir fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðissamfélaga og er því brýnt fyrir íslenskt samfélag að búa fjölmiðlun slíkt umhverfi að hún geti þrifist og dafnað

Tillaga 3: Banni við áfengis- og veðmálaauglýsingum aflétt

Viðskiptaráð leggur til að banni við áfengis- og veðmálaauglýsingum verði aflétt með nokkrum skilyrðum. Hvort tveggja er auglýst reglulega í erlendum miðlum og núgildandi bönn koma ekki í veg fyrir að auglýsingarnar birtist íslenskum almenningi. Bönnin eru því merkingarlaus og veikja einungis stöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum á auglýsingamarkaði.

Tillaga 4: Fjölmiðlanefnd verði lögð niður

Viðskiptaráð leggur til að Fjölmiðlanefnd verði lögð niður og lögbundin verkefni hennar verði færð til annarra stofnana. Tillagan byggir að hluta á tillögu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar árið 2013, þar sem lagt var til að stofnunin yrði lögð niður og lögbundin verkefni færð til Póst- og fjarskiptastofnunar (nú Fjarskiptastofu).

Viðskiptaráð áætlar að tillögurnar myndu skila því að fjölmiðlaumhverfið á Íslandi yrði sambærilegt því sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Yrði þeim hrint í framkvæmd myndi umfang RÚV dragast saman og áætla megi að tekjur einkarekinna miðla myndu aukast um 4,1 milljarða króna.

„Frjálsir fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðissamfélaga og er því brýnt fyrir íslenskt samfélag að búa fjölmiðlun slíkt umhverfi að hún geti þrifist og dafnað, en kafni ekki í afskiptum og inngripum hins opinbera. Ofangreindar tillögur sporna gegn því síðarnefnda og gera frjálsum fjölmiðlum betur kleift að sinna því mikilvæga hlutverki að styðja við íslenska menningu og upplýsingamiðlun, samfélaginu til heilla.“

Skýrsluna má sjá í viðhengi að neðan.

Athugasemd ritstjórnar: Vísir er einkarekinn fjölmiðill.

Tengd skjöl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×