Innlent

Matarpokinn rúmlega helmingi dýrari í Reykjavík en í Danmörku

Matarpoki sem keyptur er í Reykjavík er rúmlega helmingi dýrari en ef hann væri keyptur í Danmörku. Ef fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru teknar með í reikningsdæmið er munurinn enn sláandi.

Þetta kom fram í lauslegri könnun sem gerð var í þættinum Ísland í dag og birt var í gær. Keyptar voru nánast sömu matvörurnar í sambærilegum matvöruverslunum. Niðurstaðan var sú að matarpokinn sem keyptur var í Reykjavík kostaði 7.602 krónur en danski matarpokinn kostaði 2.844 krónur.

Mun algengara er að bjóða kaupendum upp á margvísleg tilboð á matvöru í Danmörku en hér og voru sumar vörurnar á sérstöku tilboði í dönsku matarkörfunni en ef afslátturinn er tekinn í burtu kostaði matarkarfan þar 4.416 krónur.

Ef horft er til fyrirhugaðra matarverðslækkana sem ríkisstjórn Íslands boðaði á dögunum og miðað við endanlega 16% lækkun á matarverði myndi íslenska matarkarfan enn vera töluvert dýrari en sú danska eða 6.385 krónur.

Í þessari könnun munaði um kjúklingabringur en þær íslensku eru nærri fjórfalt dýrari en þær dönsku. Einnig vakti athygli að verð á grænmeti er mun lægra í Danmörku og sykraður gosdrykkur var líka mun dýrari í Danmörku en á Íslandi sem má rekja til neyslustýringar sem þar er við lýði.

En í stuttu máli er karfan þannig:

-2 kg kjúklingur

-1 kg nautahakk

-2 l léttmjólk

-1 l nýmjólk

-1 l súrmjólk

-10 epli

-1 kg gulrætur

-Snicker-súkkulaði

-Coca Cola light 0,5 l

-2 pakkar hamborgarskinkuálegg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×