Innlent

Bókaútgefendur og rithöfundar fagna lækkun virðisaukaskatts

MYND/Stefán

Félag íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasamband Íslands fagnar þeim tillögum ríkisstjórnarinnar að lækka virðisaukaskatt á bókum, blöðum og tímaritum úr 14 prósetum í sjö prósent þann 1. mars næstkomandi enda hafi niðurfelling eða lækkun virðisaukaskatts á bækur um langt skeið verið eitt helsta baráttumál útgefenda og rithöfunda.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að með aðgerðunum verði virðisaukaskattur á bækur sambærilegur við flest nágrannalönd okkar eftir að hafa verið um langt skeið óeðlilega hár.

„Árin 1990-1993 báru bækur, blöð og tímarit hérlendis ekki virðisaukaskatt, líkt og raunin er nú í mörgum Evrópulöndum, og til þess hefur verið vísað æ ofan í æ að ein af áhrifaríkustu leiðum hins opinbera til að styðja við stöðu bókmenningar, auka lestur og styrkja stoðir upplýsts samfélags sé að gera Íslendingum fært að kaupa lesefni án óhóflegar skattlagningar.

Rannsóknir á norrænum bókamörkuðum sýna að lækkun virðisaukaskatts á bækur hefur bein áhrif á sölu þeirra. Ef allir hagsmunaaðilar leggjast á árarnar er von til þess að fyrirhuguð lækkun virðisaukaskatts muni hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskan bókamarkað og bókaútgáfu.

Bókaútgefendur og rithöfundar benda ennfremur á að endanleg niðurfelling virðisaukaskatts á bækur hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum þeirra sem vilja styrkja stöðu íslenskrar bókmenningar og þar af leiðandi sjálfan grundvöll tilveru þjóðarinnar: íslenska tungu," segir jafnframt í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×