Innlent

Vel hægt að taka upp neysluviðmið hér á landi

Starfshópur, sem iðnaðarráðherra skipaði til að kanna hvort hægt væri að semja neysluviðmið fyrir Íslands líkt og í nágrannaríkjunum, mælir með því að notuð verði svokölluð útgjaldaaðferð til að áætla framfærslukostnað heimila hér á landi. Jafnframt er lagt til að sérfróðum og hluthlausum aðila verði falið að vinna neysluviðmið með þeirri aðferð í samvinnu við Hagstofu Íslands. Þetta kemur fram í áliti sem starfshópurinn hefur skilað iðnaðarráðuneytinu.

Starfshópurinn hefur undanfarin tvö ár kannað möguleika á neysluviðmiðum hér á landi og í niðurstöðum hans kemur fram slíkt sé vel framkvæmanlegt. Sambærileg aðferðafræði og notuð sé í Svíþjóð, Noregi og Danmörku sé tiltölulega kostnaðarsöm en svonefnd útgjaldaaðferð, sem meðal annars hefur verið notuð í Finnlandi og Bandaríkjunum, henti betur. Hún byggist að stórum hluta á fyrirliggjandi upplýsingum sem reglulega sé aflað í neyslukönnun Hagstofu Íslands.

Starfshópurinn leggur til að sérfróðum og hlutlausum aðila, svo sem rannsóknastofnun á háskólastigi, verði falið að vinna neysluviðmið með þessari aðferð í samstarfi við Hagstofu Íslands. Starfshópurinn telur eðlilegt að forræði málsins og önnur umsjón með birtingu, t.d. á Netinu, verði í höndum Neytendastofu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×