Innlent

Segir starfsmann Landssímans hafa staðfest hleranir

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að fyrrverandi yfirmaður í tæknideild Landssíma Íslands hafi hringt í sig í gærkvöld og staðfest að sími Jóns hefði verið hleraður þegar hann var ráðherra. Þetta kom fram í viðtali við Jóhann Hauksson í þættinum Morgunhaninn á Útvarpi Sögu í morgun.

Í tilkynningu frá Þjóðarhreyfingunni segir að maðurinn sem starfaði hjá Símanum hefði sagt Jóni að hann gæti ekki lengur þagað yfir því sem hann varð vitni að meðan Jón Baldvin var ráðherra.

„Maðurinn sagði honum frá því að hann hefði tekið eftir ókunnum manni í tengigrindarsal Landssímans og hefði setið þar oft á kvöldin með hlustunartæki. Sá sem hringdi í Jón Baldvin sagðist hafa farið í tækið þegar hlerarinn skrapp frá - og þá hefðu hann heyrt Jón Baldvin ráðherra vera að tala við annan háttsettan mann. Það var semsé verið að hlera síma utanríkisráðherra lýðveldisins! Maðurinn sagðist ekki geta lengur þagað yfir þessu - og sagði Jón Baldvin að skýrt yrði frá nafni hans þegar þar að kæmi.

Jón Baldvin sagði að viðtalið við Davíð Oddsson á Stöð 2 í gærkvöldi hefði ekki við rök að styðjast og seðlabankastjórinn mundi ekki sleppa svo auðveldlega frá þessu máli.

Hvað varðaði norsku hlerunarsérfræðingana, sem Davíð Oddsson sagði að hefðu komið reglulega til Íslands á vegum NATÓ til að ganga úr skugga um að símar væru ekki hleraðir hjá stjórnvöldum, sagði Jón Baldvin að þessir sérfræðingar hefðu allt eins getað verið frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík. Gæti vel verið að þessir NATÓ sérfræðingar í hlerunartækjum hefði þvert á móti fremur KOMIÐ FYRIR hlerunarbúnaði í síma ráðherra en hreinsa tækin!," segir í tilkynningu Þjóðarhreyfingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×