Innlent

Sakar Kristján Þór um að ljúga að kjósendum sínum

Bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri vill að bæjarstjórinn taki sér launalaust leyfi meðan hann gegni prófkjörsbaráttu. Hann sakar Kristján Þór Júlíusson um að hafa logið að kjósendum sínum.

Oddur Helgi Halldórsson, leiðtogi L-listans, er stóryrtur í garð Kristjáns Þór Júlíussonar bæjarstjóra í kjölfar þeirrar ákvörðunar Kristjáns að blanda sér í prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi.

Oddur segir að Kristján Þór hafi sagst ætla að gegna starfi bæjarstjóra næstu fjögur ár en hann telji sig hafa fundið leið til að snúa út úr eigin orðum. Það verði hann að eiga við sjálfan sig en einhverra hluta vegna hafi kjósendur oft verið duglegir að fyrirgefa stjórnmálamönnum þótt þeir ljúgi upp í opið geðið á þeim. Hann telji Kristján Þór vera að svíkja það sem hann sagði og þeir sem kusu hann hljóti að hugsa hvort þeir hafi verið hafðir að fíflum.

Sjálfur segir Kristján Þór að framtíð hans sem bæjarstjóri ráðist ekki strax. Þeirri spurningu verði svarað að loknu prófkjöri en það sé ekki nema einn mánuður í það. Hann telji að fólk geti lifað með þeirri spurningu í mánuð.

Oddur Helgi telur hreinlegast að bæjarstjórinn taki nú þegar launalaust leyfi á meðan hann stendur í prófkjörsbaráttu. Rektor Háskólans í Reykjavík hafi gert það enda sé það vinna að vera í slíkri baráttu. Ef Kristján Þór nái tilætluðum árangri og fari í kosningaslag næsta vor þá sé ekki hægt að vera bæði í því og gegna bæjarstjórastöðu á Akureyri



Fleiri fréttir

Sjá meira


×