Innlent

Gorbastjov hugsanlega heiðursforseti Friðarstofnunar Reykjavíkur

Höfði verður aðsetur Friðarstofnunar Reykjavíkur sem verður að veruleika innan tíðar. Svo gæti farið að Mikail Gorbatsjov yrði heiðursforseti stofnunarinnar. Fyrrum forseti Slóvakíu sem undirbýr stofnunina segir Ísland besta staðinn fyrir friðarviðræður.

Friðarstofnun Reykjavíkur er sett á laggirnar nú í tilefni af tuttugu ára afmæli leiðtogafundarins í Höfða - en Höfði á einmitt að vera táknrænn fundarstaður Friðarstofnunarinnar. Það voru þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Rudolph Schuster fyrrum forseti Slóvakíu sem kynntu málið í morgun en markmiðið er að stofnunin verði vettvangur umræðna um friðarmál en líka staður þar sem stríðandi fylkingar geta komið og leitað lausna með viðræðum.

Schuster er virtur stjórnmálamaður og í góðum tengslum við öfluga þjóðarleiðtoga víða um heim og náinn vinur Gorbastjov en sá síðarnefndi mun hafa tekið vel í að verða heiðursforseti stofnunarinnar. Ísland er herlaust og friðsamt land segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, og því tilvalið undir slíka stofnun. Kostnaðurinn verður ekki greiddur úr borgarsjóði heldur er ætlunin að leita til fyrirtækja og stofnana um fjárstuðning. Enda verður stofnunin fyrst og fremst mönnuð fólki í sjálfboðamennsku.

Rudolph Schuster hyggst senda ýmsum fyrrum þjóðarleiðtogum sem eru nú óháðir pólitísku starfi - beiðni um að þiggja sæti í stjórn Friðarstofnunarinnar og áætlað er að safna saman í um 11 manna stjórn. Schuster sjálfur verður forseti Friðarstofnunar Reykjavíkur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×