Innlent

Nýtur ekki sömu virðingar og áður

Nýtt fjögur þúsund manna verkalýðsfélag var stofnað í dag þegar Félag járniðnaðarmanna og Vélstjórafélag Íslands sameinuðust. Formaður félagsins, segir iðn- og tæknimenntun ekki njóta sömu virðingar og áður.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna heitir hið nýja verkalýðsfélag og er VM skammstöfun þess. Helgi Laxdal sem var formaður vélastjórafélags Íslands er formaður VM en Örn Friðriksson varaformaður. Með sameiningunni er ætlunin að ná fram hagræðingu í rekstri og betri kjörum fyrir félagsmenn.

Helgi segir iðn- og tæknimenntun ekki njóta sömu virðingar og áður. Það megi tildæmis sjá í sal Alþingis þar sem einungis sé talað um háskóla þegar offramleiðsla sé á háskólamenntuðu fólki.

Helgi segir þörfina fyrir verkalýðsfélög verða áfram fyrir hendi. Hann segir stjórnvöld verða að fara marka stefnu varðandi erlent vinnuafl og finnst honum óskynsamlegt að passa ekki upp á að hér verði áfram starfandi íslenskir iðnaðarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×