Innlent

Segja atvinnuleysi aukast með samþykkt ILO

Samtök atvinnulífsins hafa staðið í vegi fyrir því að samþykkt frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, um reglur um uppsagnir að hálfu atvinnurekanda, taki gildi hér á landi, því þær auki atvinnuleysi. Fyrrverandi starfsmaður hjá Alcan segir sárt að missa af svokölluðum flýttum starfslokum sem fólk með langan starfsaldur í álverinu hefur kost á.

Starfsmenn álversins í Straumsvík, sem sagt er upp störfum á seinni árum starfsævinnar, missa af flýttum starfslokum sem starfsmönnum með langan starfsaldur hjá fyrirtækinu bjóðast samkvæmt kjarasamningi. Í því felst að starfsmenn geta hætt störfum og fengið hálf meðallaun, fastráðinna almennra starfsmanna, í þrjú ár eða um 130 þúsund krónur á mánuði. Starfsmenn starfað hafa í fimmtán ár geta fengið flýtt starfslok 65 ára en þeir sem starfað hafa í tíu ára við 67 ára aldur. Fyrrverandi starfsmaður álversins segir sárt að horfa á eftir þessum fríðindum.

Markúsi Kristjánssyni var sagt upp fyrir einu og hálfu ári rétt áður en hann mætti í jarðarför og hann er ósammála þeim yfirlýsingum sem komið hafa frá Alcan um að vel sé staðið að uppsögnum í fyrirtækinu. Þar hafi hann ekki mátt kveðja félaga sinn heldur sagt að koma sér út.

Verkalýðsfélögin hafa barist fyrir því samþykkt frá Alþjóðavinnumálastofnuninni verði tekin upp hér á landi. Í henni fellst að ekki sé hægt að segja starfsmanni upp nema að fyrir því sé gild ástæða eins og hæfni eða hegðun starfsmanns eða að uppsögnin byggist á rekstrarlegum ástæðum. Samtök iðnaðarins hafa barist gegn þessu og ætla að gera það áfram þar sem samþykktin stuðli að atvinnuleysi og hamli nýsköpun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×