Innlent

Mótmælatölvupóstur streymir til sendiráðsins í Lundúnum

Helstu umhverfisverndarsamtök heims bregðast ókvæða við hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni og allir stærstu fjölmiðlar á Vesturlöndum greina frá málinu. Þá hefur tölvupóstur með mótmælum streymt til íslenska sendiráðsins í London í morgun.

Umhverfissamtökin véfengja meðal annars heimildir íslendinga til veiðanna, telja þær brjóta í bága við hvalveiðibannið, Íslendingar séu með veiðunum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, þær séu álitshnekkir fyrir Íslendinga um allan heim, engin markaður sé lengur í heiminum fyrir hvalkjöt og að þetta tiltæki kunni að hvetja aðrar þjóðir til hvalveiða, svo nefnd séu nokkur gagnrýnisatriði.

Þær undantekningar eru þó að grænlensk stjórnvöld fagna ákvörðun Íslendinga og sömuleiðis formaður Noðrurheimskautssamtakanna. Fulltrúar utanríkis- og sjávarútvegsráðuneytanna áttu í gær fund með sendiherrum þeirra landa sem hafa sendiráð hér á landi, til að kynna málstað Íslendinga. Þar ítrekaði breski sendiherrann andstöðu Breta við veiðunum og í sama streng tók sendiherra Bandaríkjanna.

Utanríkisráðuneytið hefur virkjað öll senidráð íslands í útlöndum þar sem sjónarmiðum Íslendinga verður komið á framfæri við fjölmiðla og almenning. Ekkert hefur enn borið á áþreifanlegum mótmælum við veiðarnar en Haukur Ólafsson, sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í London, sagði að fjöldi tölvuskeyta til að mótmæla hvalveiðum, hefði margfaldast í morgun. Hvalur 9 hélt til veiða í gærkvöldi og er væntanlega um það bil kominn á miðin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×