Innlent

Abramovich væntanlegur til landsins

Roman Abramovich, eigandi Chelsea, er væntanlegur hingað til lands á morgun samkvæmt tilkynningu frá forsetaskrifstofunni. Hann er hér í erindagjörðum sem ríkisstjóri í Chukotka í Síberíu og mun ásamt Kamil Iskhakov, sérlegum fulltrúa Pútíns Rússlandsforseta í austurhéruðum Rússlands, kynna sér málefni tengd nýtingu jarðhita, fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða, félagslegri þjónustu og ferðamálum á Íslandi.

Það er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem mun fylgja þeim um landið en þeir verða á ferðinni á morgun og hin hér á landi. Ríkisstjórarnir munu m.a. heimsækja höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur og orkuverið á Nesjavöllum, verkfræðistofuna Hnit, fiskvinnsluna Vísi, Saltfisksetrið, fiskeldið Stað, skóla og íþróttamannvirki í Grindavík og kynna sér starfsemi Bláa lónsins.

Fram kemur í tilkynningunni að Ishkakov sé einn af sjö sérstökum fulltrúum forseta Rússlands og skipaður yfir allmörg héruð í austanverðu Rússlandi. Þessir sérstöku fulltrúar Rússlandsforseta hafa yfirumsjón með efnahagslífi, félagslegum umbótum, atvinnulífi og þróun þessara héraða, en í austanverðu Rússlandi er að finna umtalsverðan nýtanlegan jarðhita og gjöful fiskimið.

Á undanförnum árum hafa ýmis íslensk fyrirtæki unnið að verkefnum á þessum svæðum eða kannað möguleika á þátttöku í atvinnuuppbyggingu þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×