Innlent

Kolmunnastofninn nýttur umfram afrakstursgetu

Síðustu ár hefur mjög góð nýliðun verið í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn stækkaði í rúmar 7 milljónir tonna árið 2003, en hefur farið minnkandi síðan.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins um ástand nytjastofna í Norðaustur-Atlantshafi sem birt var í dag ásamt tillögum rágjafarnefndar um nýtingu fiskistofna. Kolmunni er einn þeirra fiskistofna sem Íslendingar nýta.

Í skýrslunni segir að stofninn sé samt sem áður talinn vera yfir varúðarmörkum. Gögn úr bergmálsleiðöngrum í ár bendi til þess að árgangur 2005 sé lítill. Aflinn hefur verið yfir 2 milljónir tonna síðan 2003 og er gert ráð fyrir að hann verði 2.1 milljón tonna í ár.

Talið er að stofninn sé nú nýttur umfram afrakstursgetu. Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til að verulega verði dregið úr kolmunnaveiðum og aflamark árið 2007 verði 980 þúsund tonn, enda sé það í samræmi við varúðarsjónarmið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×