Innlent

Valgerður til Síberíu á fund Norðurskautsráðsins

MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun á morgun eiga fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sem er gestgjafi á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem haldinn verður á fimmtudag. Ráðið er sameiginlegur vettvangur norrænna ríkja, ríkja Norður-Ameríku og Rússlands auk samtaka frumbyggja.

Valgerður og Lavrov munu á fundi sínum ræða tvíhliða samskipti ríkjanna og sameiginleg hagsmunamál en á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem fram fer í Salekhard í Norður-Rússlandi, mun Valgerður meðal annars fjalla um loftlagsbreytingar og breytinga á náttúrufari norðursins.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að utanríkisráðherra muni í því samhengi vekja athygli á vaxandi auðlindanýtingu og skipaflutningum og nauðsyn þess að aðildarríki bregðist við þessum breytingum með viðeigandi hætti. Einnig mun ráðherrann lýsa opnun svokallaðrar norðurslóðagáttar (arcticportal.org), netvæddrar upplýsingaveitu sem Háskóli Akureyrar hefur haft forystu um að þróa í samvinnu við Norðurskautsráðið, Háskóla Norðursins og fleiri aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×