Innlent

Deilt um stærð þynningarsvæðis álvers í Straumsvík

Fjömennt var á fundi áhugahóps gegn stækkun álversins í Straumsvík í gærkvöldi. Talsmaður hópsins telur að stækkað álver þurfi mun stærra þynningarsvæði en nú er, en bæjarstjórinn í Hafnarfirði segir að stefnt sé að því að þynningarsvæðið verði minna en það er nú.

Hópurinn kallar sig Sól í Straumi og mættu um 150 manns á fundinn í gærkvöldi. Fólkið kemur úr flestum stjórnmálaflokkum og ólíkum áttum en sameinast um það eitt að vera á móti stækkun álversins í Straumsvík.

Pétur Óskarsson, talsmaður Sólar í Straumi, segir að stækkað álver þurfi allt að 18 ferkílómetra þynningarsvæði en öll byggð í Hafnarfirði í dag sé á 12 ferkílómetrum. Þetta muni því hafa mikil áhrif til framtíðar.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir aftur á móti, að bærinn geri þá kröfu að þynningarsvæðið verði minna en núverandi svæði. Mikil áhersla sé lögð á umhverfis- og mengunarmálin í þeirri vinnu sem nú fer fram við gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

Lúðvík segir þetta skipta íbúana miklu máli. Rannveig Rist, forstjóri Alcan, segir að fyrirtækið treysti sér vel til að vera innan núverandi þynningarmakra, enda hafi miklar úrbætur verið gerðar í umhverfis- og mengunarmálum hjá Alcan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×